Færsluflokkur: Lífstíll
Ég, staðfastur og þrár hef ávalt litið á það sem mesta gæðakost í eigin fari að liggja kylliflatur fyrir öllu sem viðkemur tölvum og annarri tækni. Ég hef bara ekki verið svo vel af Guði mínum gerður að hafa þessi teknísku gen í líkama og sál.
Kost kalla ég meðvitundina og viðurkenningu þessa litla lastar sem fer á annars ágætis menni sem ég er. Ég leggst fyrir tækninni og leyfi henni að njóta sín og sýna mér hvað hún kann, án afskipta minna í formi sem í sem minnstum mæli gæti kallast bessewisser.. æm nó better or weiser sir!
En það má ekki gleyma því, að þó tæknin sé flókin, þá á það sér (eins og allt annað sem hringsnýst með jörðinni í þessum heimi) sínar jákvæðu hliðar. Settist niður við tölvuna í dag og leit út um gluggann og sá rigninguna dropa í pollum úti á stétt, um leið og hún fossaðist fram af þakskeggi hússins ekki svo langt fyrir ofan umræddan glugga.. Velti því fyrir mér, hvort það væri tilviljun að ég settist niður með ársmillibili við þessa síðu og velti fyrir mér veðrinu? Velti í þeirri andrá veðrinu útaf borðinu, í nafni nýbreytni
Ég nýt þess að takast á við áskoranir!
Um leið og ég fletti í morgun yfir facebook síðuna mína, hugleiddi ég að þó svo við séum í raun öll bundin bandi vina, og Geira Glaðavinir eru nokkrir í andlistbókarheimum, þá ákvað ég að sniðugt skildi kalla að búa mér til "like" síðu eins og er helst í tísku í dag.
Ég hef ef ekkert annað, verið tískufyrirbrigði og um að gera að fljóta með straumnum á nýjar slóðir í tækninni líka...
Like síðan er í stuttu máli, enn í smíðum. Eins og fram hefur komið, stíg ég ekki í tæknivitið og það reynist mér, ekki um megn, heldur MAGN .. af tíma sem virðist ætla fara í þessa framkvæmd. EN koma tímar koma ráð og nú ræðst ég í verkið, og heilinn fær að njóta þess með vinnusemi sem ber svo ávöxt nýrrar þekkingar, þrautseigju og harðsperra eftir góða ræktun.. viti menn, ég þarf ekki einusinni að eyða þúsundköllum í Laugar til að þjálfa hann! :)
Knúsið tæknina!
Lífstíll | 13.8.2010 | 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
fönn... íslensk fönn...
Mér var litið fáeinum mínútum út um svalagluggann og viti menn, blasti við mér hvílík guðdómleg fegurð sem hefur ekki litið dagsins ljóss hér á suðvesturhorninu frá því í vor og hvílíkur sem söknuðurinn hefur verið! Það var ekki bara eitt snjókorn, ekki tvö.. heill snjóflöguher sem ráðist hefur á landið okkar með allri þeirri dýrð og gleði sem honum fylgir.
Ef það er eitthvað eitt, já og aðeins eitt sem ég ætti að velja sem gleður mig mest við fyrsta snjóinn, þá stendur ekki á svörum hér á þessum bænum, ónei! Snjórinn, hér á Íslandi er að vanda mér eins og öðrum landsmönnum algerlega í opna skjöldu. Óvissan, verður snjór á morgun ? eða ekki ? eða verður ? eða ekki ? er svo gífurleg og hristir upp í hverdagleika okkar norðanlegu siðmenningar í skammdeginu til muna. Við búum við þessa trítilmögnuðu spennu frá degi til dags og aldrei að vita hvað kemur næst, hvort sem það verður eftir fimm sekúndur, mínútur, klukkustundir eða daga.. alltaf kemur snjórinn með snjókornahernum marserandi um kalt vetrarloftið.
Óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa spennuleiks sem við leikum á degi hverjum, minnst fulla meðgöngu, eða 9 mánuði á ári hverju... er hinn magnþrungni línudans á milli sumardekkjá og hálku. Það er nú bara adrenalínpési út af fyrir sig sem vert væri að borga sig inn á. Hver kannast ekki við bíllinn taki mann á ókunnar og óvæntar slóðir í hálkunni þegar það hefur látið á sér standa að setja vetrarskóna á nýbónaðan bílinn. Talandi um kærkomna afsökun til þess að mæta of seint í vinnuna og hlusta á ljúfu tónanna sem Rondo lætur flæða um útvarpsbylgjurnar í morgunsárið.. í þessar auka mínútur meðan maður bíður eftir svartklæddu mönnunum í bílunum með bláu ljósin..
Knúsið snjóinn!
Lífstíll | 27.11.2009 | 11:10 (breytt kl. 11:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lífstíll | 19.12.2008 | 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er nú meira hvað að getur glatt hann Geira að fara í búð. Ég var að velta því fyrir mér við upphaf innsláttar á þessarri forláta færslu minni hvað það væru mörg gleðitilefni til frásagnar hér sem gerast í búðinni eða eitthvað henni tengt.
En þannig er nú bara lífið, það útdeilir gleð og hamingju til mann hvar sem er og hvenær sem er hvort sem er í kúamykju úti í fjósi, strætóskýli á Suðurgötunni eða lágvöruverðsverslunum landsins. Þannig var nú einmitt sama sagan í dag. Mikið afskaplega snertir það fallega hörpustrengi hjarta míns þegar ég stend í röð við kassa og næsti viðskiptavinur á undan mér er hávirt gamalmenni. Ég ber að sjálfsögðu eins og vera ber mikla virðingu fyrir fólki sem lifað hefur tímana tvenna og ljóma ég allur innra með mér þegar það tekur upp pyngjuna sína úr skjóðunni sinni og byrjar að telja túkallana og krónulingana. Unglingsdaman á kassanum skjagar upp úr sér níjundruðsextíogtværkrónur ... "alveg sjálfsagt" segir Herra Gammel mann "ég held ég eigi það alveg upp á krónu" .. og byrjar að telja.. en, to, tre.... Þetta minnir mig á gamla daga, þar sem farsímarnir voru fjarlægur draumur, greiðslukort hlægjileg og tupperware var helsta söluvara heimahúsanna. Enginn vissi hvað Herbalife var og það kostaði 250 kall í bíó. Ohh hvert skrjáf og kling í veski Herra Gammel mann yljar mér um hjartarætur og ég svíf um bleikar himinhæðir fallegra minninga...
Knúsið klink gamla fólksins!
Lífstíll | 13.11.2008 | 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Geirinn skreppaðist í búðina í gær aldrei þessu vant. Lá leið mín þangað í þeim tilgangi að ná í hinar og þessar gæðavörur í baksturinn. Hvað er betra í þriðjudagsskammdeginu en sjóðheitar og seiðandi spritzkökur. Ég skal segja ykkur lesendur góðir að það er fátt og því lá leið sem var í Krónuna.
Þegar heim var komið opnaði ég bréfgerða eggjabúið sem hýsti tólf egg sem er nú meir en nauðþurftin í uppskriftina. Það sem blasti við mér var að vonum mikil hænugleði. Nú af þeim tólf eggjum sem samankomin voru í bakkanum voru þrjú þeirra brotin eða sprungin. Hversu ljúft og táknrænt það er fyrir lífið á bakvið tjöldin og hugsa ég með mér þegar ég fæ slíkan glaðning inn á eldhússkenk til mín um það að þarna hafi nú bara Guð verið að banka að dyrum og litlu rauðurnar farið að þeyta upp í sér og reynt að verða að ungum. Það hafi þó ekki tekist í það skiptið en það er um að gera að reyna og er þetta björt áminning á fallegt líf og tilveru kúkú , brabra , kvakvak , tvítví og allra þeirra fiðruðu vina okkar sem nú fljúga um himinn himnaríkis. Jesús gaf sitt líf fyrir okkur, svo hafa hænsnin engu síður gert til þess að fæða svanga Manga mannkynsins.
Fögnum eggjalotteríinu sem dregið er út eftir hverja búðarferð og heiðrum fiðruðu frændur okkar.
Knúsið eggin!
Lífstíll | 12.11.2008 | 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eins og áður hefur komið fram þá nenni ég ekki að taka þátt í þessarri kreppu og held mínu gleðistriki áfram ótrauður. Fer þangað sem mig langar til, geri það sem mig langar til og fæ mér það sem mig langar til. Kreppukrónur hvað?!
Nú um daginn fékk ég mér til að mynda Stöðvar 2 tilboðspakka allra landsmanna og bætti á mig hinum ýmsu erlendu rásum til að lýsa upp skammdegið heima í stofu. Þessi dýrð sem svo margt annað tók upp á því að koma mér skemmtilega á óvart í gærkvöld. Allt í einu fór hljóðið að dragast aftur úr myndinni. Ógeðslega er gaman þegar svona gerist. Þetta er eins og að horfa á gamla og góða klassíska Jackie Chan mynd þar sem döbbið á mandarínsku snillinganna er algerlega hrein gargandi snilld!
Nú ég sat í sófanum heima og meðan Kompásinn birti upp líf mitt og liti þess þá gafst mér þess kostur á að ímynda mér að ég væri staddur hvar í veröldinni sem er þar sem döbbið rokkar, svo sem Frakklandi, Spáni, Þýskalandi. Allt eru þetta exótískir staðir sem ég gæti vel hugsað mér til að eyða mánudagssíðkvöldi um miðjan nóvember, og í gær flutti Stöð 2 mig hálfa leið í huganum.
Knúsið Kompásinn!
Lífstíll | 11.11.2008 | 22:16 (breytt kl. 22:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Djöfull dýrka ég það að fara í búðir sextíu dögum fyrir jól og þá þegar er Klukknahljóm farið að klingja í hátalarakerfinu og grænar greinar uppi með öllum veggjum. Svona á að gera þetta!
Hagkaup og Rúmfatalagerinn hafa nú yfirleitt vinninginn, en IKEA og aðrar verslanir koma sterkar inn, Húsasmiðjan/Blómaval þar á meðal. Þetta er alvöru andi og geng ég trallandi með innkaupakörfuna eins og hreindýr á jólanótt með allt nema rauða nefið. Það væri nú kannski hægt að kaupa sér rauðan túss og redda því, en það er seinna tíma vandamál. (Segi ég, "vandamál" fyrirfinnast ekki í þessum heimi, einungis umhugsunarefni sem taka mislangann tíma)
Skyldi ég hvetja fleiri verslanakeðjur til þess að taka upp slíkan hátíðarsið og bera boðskapinn að vitum okkar landsmanna og jafnvel fyrr, október eða kannski september!! Það er aldrei of snemmt fyrir gleði Litla Jólabúðin á Laugaveginum stendur alltaf fyrir sínu. Ég kíkti þangað í júní og boðaði mikinn fögnuð. Betra að vera snemma í jólaskrautinu. Nú skulu seríurnar upp og húsið klætt gleðilitum frá grunni til þakbríkur.
Knúsið jólin í júní!
Lífstíll | 10.11.2008 | 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er með ólíkindum hvað það getur stundum farið í taugarnar á fólki þegar gemsar hringja við hinar ýmsu aðstæður. Sjálfur get ég ekki hamið mig af kæti þegar þessi litlu draumatæki taka gleði sína í þögninni og springa út í söng.
Ég var staddur á leiksýningu í gær þar sem slík ánægjustund átti sér stað. Í því sem leikendur á sviðinu brustu í grát af sorg, var kominn tími hjá einhverjum góðkunnum Nokiavini, Sony eða Motorola til þess að hrista upp í gleði gesta á ný með því að syngja og tralla fyrir þá með miklum gleðitónum.
Hversu sællegt og fínt það hlýtur að vera að lifa taumlausri tilveru eins og síminn sem kærir sig ekki um stund nér stað, hvort sem er í bíó, kennslustund í HÍ eða leikhúsi á Hverfisgötunni, ljóðalestur í samtökunum 78 eða Alþingisfundi. Dingdingdingaring!! Ég lifi í stanslausri öfund á þessum gleðiapparötum sem færa gleðina okkur til eyrna óháð stund né stað og fagna því þegar þau taka til tónanna í hvaða sal sem ég er staddur. Bananafónninn
Knúsum gemsana!
Lífstíll | 9.11.2008 | 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvílík undur og dásemdir sem felast í lítilli dollu.
Ég borðaði mér til tilbreytingar hindberjaskyr í stað bláberja og það verður að segjast að þó bláberin hafi verið í einstöku uppáhaldi í gegnum árin þá slá hindberin þeim hvergi slöku við. Það hreinlega tók við heljarinnar veisla í munninum á mér, uppskeruhátíð og bragðlaukarnir voru veislustjórar.
Það ætti að heiðra manninn sem fann upp Skyr og það ætti að veita hugmyndasmiðinum bakvið hindberin fálkaorðuna. Svo er dósin líka svo falleg á litinn að maður hreinlega getur ekki fengið hana staðist þegar maður stendur í kælinum í Fjarðarkaupi. Litadýrðin sem tekur á móti manni í skyrdeildinni er með eindæmum, en hindberin skína þar allra skærast.
Knúsið hindberjaskyrið!
Lífstíll | 8.11.2008 | 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
þessir þrír litlu stafir URL fela svo margt framandi í sér. Meðal annars má taka ensku þýðinguna og bera hana fram sem Universal Resource Locator. Jahá þar hafið þið það, tæknilegir örðugleikar hvað? Tæknigeiri mættur á svæðið! Nú ef það segir fólki fátt þá má einnig bera það fram á móðurmáli okkar eyjabúa en það skal skrifast "vefslóð"
Vefslóðir eru skemmtilegar í sjálfum sér. Þær færa fólk til framandi staða svo sem þessarrar forláta síðu minnar hér. Stundum er eftirsótt url frátekið. Mitt var það. En svo þegar dýrðardagurinn kemur, bjöllur hringja, fuglar syngja og viðkomandi áskrifandi segir upp áskriftinni sinni, þá getur hver sem er mætt á svæðið og eignað sér slóðina sem bíður frjáls eins og fuglinn fljúgandi. Ég gerði það. Þó eyjan okkar sé lítil, er hún ekki of lítil til þess að það komi fyrir að hinir og þessir einstaklingar samfélagsins beri sama nafn. Það er því óhjákvæmilegt að tveir aðilar með nafninu Valgeir geti vel hugsað sér að hreiðra um sig á vefsetrinu valgeir.blog.is. Þegar einn Valgeir segir sig frá skráningu, tekur næsti við. Skyldi ég fá leið myndi ég glaður (að vanda) varpa urlinu til næsta Gogga, það er gangur vefsins.
Knúsið urlið!
Lífstíll | 7.11.2008 | 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jan. 2025
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Spurt er
Bloggvinir
- Jón Agnar Ólason
- Sigurjón
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Hlynur Hallsson
- Jónas Björgvin Antonsson
- Svanur Sigurbjörnsson
- Margeir Örn Óskarsson
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Púkinn
- Hlini Melsteð Jóngeirsson
- Þarfagreinir
- Ísdrottningin
- Anna
- Jón Kjartan Ingólfsson
- Heimir Tómasson
- gudni.is
- Gunnar Kr.
- Steinn Hafliðason
- Alfreð Símonarson
- Ólafur Aron Sveinsson
- Daníel Halldór
- Einar Sveinbjörnsson
- GK
- Guðlaug Birna Björnsdóttir
- Guðmundur Ásgeirsson
- gummih
- Haukur Nikulásson
- Haukur Viðar
- Ingvar Valgeirsson
- J. Einar Valur Bjarnason Maack
- Kári Harðarson
- krossgata
- Margrét Sverrisdóttir
- Quackmore
- Siggi Lee Lewis
- Sverrir Stormsker
- Swami Karunananda
- Texi Everto
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja